Færslur: 2018 Janúar

29.01.2018 22:15

Helgafell - FÍ Alla leið

Þá var það önnur gangan með Alla leið. Í kvöld var farið í Mygludal, Valahnúka, Valaból og síðan skroppið uppá Helgafellið...þetta var hraðferð dauðans og kellan náði að svitna aðeins...langt síðan það gerðist hehe. En þetta fína veður bara og voru farnir 7.3 km á 2:24 klst.  Kellan bara dáldið þreytt núna en sátt og sæl emoticonÞokkalegur hringur og hér neðst má sjá toppinn á Helgafelli. 

26.01.2018 07:36

Helgafell Hafnarfirði 25.jan 2018

Var komin með smá fráhvarfseinkenni...enda komnir 12 dagar frá síðustu göngu. Það var komin blíða þannig að ég skellti mér á leiðinni heim á Helgarfell í Hafnarfirði...alveg næstum því í leiðinni :) 

Frábær ganga, og var bónus að sjá risa hóp af hröfnum leika sér á toppnum. Náði upp og niður án þess að þurfa að kveikja á ljósinu, orðið bjart lengur.  En var líklega um 1 og hálfan tíma.  Síminn drap á sér auðvitað í vindkælingunni á toppnum en náði svo að kveikja á honum á leiðinni niður..en þá var samt alveg 50% eftir af hleðslu..pirrandi.  

Hitti síðan Örn Þór frænda þegar ég var komin niður...skemmtilegt því ég sá bara ekkert framan í hann þar sem hann var með höfuðljós.. en við svona könnuðumst við raddir þegar buðum gott kvöld. 


23.01.2018 22:28

23. janúar 2018 / 23. nóvember 2017

Mig langar að deila hér færslu sem ég setti á Facebook þann 23. nóvember síðastliðinn.  Ég fékk verkefni í hendurnar í desember 2016 sem ég ákvað að taka með trompi. 

Síðustu 11 mánuðir 

Í dag fór ég í tékk hjá lækni - en ætla að byrja þessa frásögn í desember 2016 en þá fékk ég símtal frá hjúkrunarfræðingi sykursýkismóttöku á heilsugæslunni og fékk ekki mikið val um mætingu til hennar..það var annað hvort fyrir kl 16 þennan dag eða kl 8 daginn eftir. 
Ég hafði farið í blóðprufu tveim vikum áður og niðurstöður sýndu að ég var ekki á góðu róli með blóðsykur og mældist langtímasykurinn 13. Hljómar ekki vel og ljóst að það var verkefni framundan hjá kellunni. Þetta skýrði kannski ýmislegt ef horft er á heilsufar mitt á þessum tíma - endalaust þreytt - mikið slen - svitnaði við minnstu áreynslu - sem sagt konan var að bugast úr heilsuleysi. 
Sem sagt þennan örlagaríka dag fyrir 11 mánuðum fékk ég að vita að ég þyrfti að fara að sprauta mig með Insúlín.hélt það yrði nú ekki mikið mál , en annað kom á daginn - þetta kvöld var eitthvað kusk í auganu þegar fyrsta stungan kom. Þarna gerðist eitthvað í kollinum og var ég ekki alveg tilbúin í þennan pakka og ákvað að ég ætlaði að gera allt sem mögulegt væri til að sleppa undan þessu. 
Hvað var til ráða? jú sykurinn skyldi úr mataræðinu, tek fram að þetta var tveim dögum fyrir jól.  Passa uppá skammtastærðir og já reyna að komast í göngur aftur, en þarna á þessum tímapunkti var ég við það að gefast uppá þessum göngum þar sem ég var gjörsamlega að deyja alltaf í þeim vegna úthaldsleysis og þreytu. 
En til að gera langa sögu stutta.þá tókst þetta með heilmikilli vinnu! Ætla ekkert að draga úr því að þetta var ekkert alltaf dans á rósum, en að sjá árangur, geta farið í fjallgöngur og notið þess, blóðsykurinn lækkaði og já og svo kannski eins og fólk hefur tekið eftir þá hefur talan á vigtinni líka lækkað. Á rúmum 15 mánuðum hafa farið um 30 kg og þar af 20 kg frá því þennan örlagaríka dag í desember 2016. Þessi átök síðustu mánuði hafa svo sannarlega borgað sig. En kannski það sem er mikilvægast að ég er laus við Insúlínsprautur. er reyndar ennþá á töflum en læknirinn sagði í dag að ég mætti prófa að minnka skammtana á lyfinu þar sem mælingin í dag koma vel út og árangurinn sýni að ég ætti jafnvel að geta þetta án lyfja, langtímasykurinn mældist 5,4.  
Markmið ársins var að ná topp Heklu - þann 14. október náði ég því og næstu markmið eru að skýrast þessa dagana! 
Lífið er núna!
Þarna kemur fram að læknirinn sagði að ég mætti minnka skammtana af lyfinu sem ég er að taka, en í dag er ég að taka tvær að morgni og tvær að kvöldi.  Í gær, 22. janúar, fannst mér tíminn vera kominn til að prófa þetta... þannig að ég tók út eina töflu að kvöldi og er spennt að sjá hvernig það gengur.  En ég er ennþá að mæla mig til að fylgjast með og læra hvað er best fyrir mig að borða.  

Mæling í kvöld var 5,7. En markmið mitt er að vera á milli 5 - 6, hvort sem er morgun eða kvöldmæling. Þannig að sátt við þetta, stefni á að halda þessu svona, en auðvitað koma hærri mælingar stundum emoticon  fer allt eftir því hvað ég er að borða hverju sinni, bara gaman að því. 

13.01.2018 13:25

Mosfell - Alla leið 2018

Jæja þá var það fyrsta ganga með Alla leið 2018 hópnum. Farið var á Mosfell og fengum bara þokkalegt veður.. smá ofankoma sem var í hvítari kantinum og vindur, en ljúft. 
Hópnum var skipt í þrjá minni hópa eftir smá tíma til að gefa sem flestum tækifæri til að ganga á þeim hraða sem þau óska eftir. Þannig að það var hópur sem labbaði hratt, meðal hraði og síðan hægar.  Ég valdi að fara í meðal hraða hópinn og var það bara mjög fínt. Það voru mjög margir í þessari göngu en gekk vel. 


09.01.2018 22:20

Úlfarsfell 9. janúar 2018

Í dag skellti ég mér á Úlfarsfell..átti reyndar að fara á fund en hann frestaðist og því var ákveðið að skella sér í göngu í staðinn. Enda þurfti ég aðeins að eyða tímanum í bænum þar sem ég skellti mér síðan á kynningarfund hjá Ferðafélaginu kl 20 í kvöld.  Þar var verið að kynna gönguverkefnið Alla leið 2018... Kellan er búin að skrá sig (held ég, ef skráning hefur skilað sér). Þá er bara eftir að mæta og láta sjá og spurning hvort ég stefni á Hvannadalshnúk, Eyjafjallajökul, Birnudalstinda eða Hrútfjallstinda...þarf að ákveða það mjög fljótlega. Allt bara dáldið erfitt að sjá á mynd hehe.
Mynd dagsins er tekin á Úlfarsfelli í kvöld, flott veður á milli storma. Þurrt allan tíman, fór aðeins að dropa þegar nálgaðist bílinn. Góður hiti... um 5 gráður.   

07.01.2018 15:28

Fyrsta ganga ársins 2018

Þann 4. janúar var farið í fyrstu göngu ársins. Það var fimmtudagur og þá var auðvitað skellt sér á Úlfarsfellið.  Með mér fór Árbjörg og óhætt að segja að það hafi verið Ljósálfar á ferð. Það var ágætis vindur og kalt á toppnum. Ætlaði að taka GPS tækið með en að einhverju völdum var það rafmagnslaust sem ég skil ekki alveg þar sem ég var búin að nota það 1x eftir að ég setti nýjar hleðslurafhlöður í það...en ætla að hlaða aftur og sjá hvernig virkar næst, ef eitthvað klikkar þá fer ég og skila þessu drasl rafhlöðum ef tækið verður strax rafmagnslaust. Talað um að hleðsla eigi að duga í 16 klst. 
En við vorum bara í rólegheitum í þessari göngu og vorum um 40 mín uppá toppinn, niðurferðin tók aðeins lengri tíma, þannig að endaði í 1:48 klst, og þá fylgir ekki sögunni að við töluðum svo mikið að við týndum stígnum. 

07.01.2018 14:37

Gleðilegt ár 2018

8. janúar 2006 sett ég fyrstu færsluna hérna inn....sem sagt komin 12 ár!  væri nú athyglisvert að skoða þessar færslur og aldrei að vita nema ég kíki eitthvað á gamalt hérna.  En ákvað að borga eitt ár í viðbót og sjá hvað ég nenni... spuring að gera göngublogg...setja inn allar göngur og svona sem ég ætla að vera dugleg að stunda á þessu ári.  Sé til, en ætla að minnsta kosti að byrja að skoða þetta aftur. Þessi mynd er tekin í síðustu göngu 2017 en hún var á Þorbjörn

  • 1
Flettingar í dag: 92
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 887386
Samtals gestir: 108460
Tölur uppfærðar: 19.10.2018 04:56:18