09.07.2018 16:02

Laugavegur 6. - 8. júlí 2018

Jájá samkvæmt þessu bloggi hef ég nú ekki verið að standa mig í göngum, en síðasta blogg endaði á því að ég var að verða raddlaus og það stóð yfir í smá tíma, fékk einhverja pest í mig og var lengi að ná henni úr mér og endaði á pensilíni og allskonar, vökvi í eyra og fleira skemmtilegt. En nú er það búið og ég fór aðeins á Þorbjörn 20. júní.. tók smá göngu í Búlgaríu þegar ég var þar..svona eins og eitt Helgarfell og/eða Úlfarsfell... algjört æði. 

En þetta blogg snýst að mestu um ferðina sem ég fór í um helgina, en það var hinn eini sanni Laugavegur.  Fyrir einhverju síðan hefði mér ekki dottið í hug að setja þetta á svokallaðan to do lista.. en það var búið að bjóða mér að koma í þessa ferð snemma í vetur og ákvað ég að kýla á það og þá þýddi ekkert annað en að koma sér í smá form. Því Laugavegurinn er alveg krefjandi enda eru þetta 53 km.  Við fórum þetta á þrem dögum þ.e í göngu. Fyrsta dagleið var frá Landmannalaugum í Álftavatn sem var eitthvað um 23 km. Önnur dagleið var Álftavatn - Emstur sem endaði í minnir mig um 18 km. Síðasta dagleiðin var Emstrur - Þórsmörk sem endaði í rúmum 16 km. Þegar við vorum í Emstrum tókum við smá aukagöngu um kvöldið og kíktum á Markarfljótsglúfur sem er þar rétt hjá og var það hrein unun á að sjá. Alveg þess virði fyrir þreytta fætur og gífurlega strengi í lærum hehe. 

Það má ekki gleyma að tala aðeins um veðrið..því jú þetta sumar hefur verið óvenjulegt að mörgu leiti. Við vorum við öllu viðbúnar.. Föstudagurinn var bara algjört æði, náðu þurru veðiri mest alla leiðina, kom smá úði í Brennisteinsöldum, en stóð stutt yfir. Laugardagurinn byrjaði vel og var það megin hlutann af leiðinni, fengum síðan rigningu síðasta hlutann af söndunum og í skálann í Emstrum...vorum kannski ekki alveg rennandiblautar þegar komum þangað en samt blautt.  Vegna slæmrar veðurspár þá var ákveðið að fara snemma af stað á sunnudagsmorgun, síðustu dagleiðina, of fórum við kl 7:20 af stað. Fengum þurrt og fínt veður alla leið í Þórsmörk sem var bara algjört æði. Ekki hægt að fá mikið betra gönguveður. Þannig að ég kvarta ekki yfir veðrinu þessa helgina. 

En vegna veðurspár þá tókum við ákvörðun að reyna að komast bara heim þarna á sunnudeginum í stað þess að vera nótt í Þórsmörk, enda ekkert útlit fyrir að við gætum gengið eitthvað í Þórsmörk á mánudeginum. Spurning var hvort við fengjum far með rútunni úr Þórsmörk á röngum degi... fengum síðan að vita að gætum farið með að minnsta kosti á Hellu...síðan spurning hvað myndi gerast þar. Þegar við komum þangað þá var beðið eftir rútunni úr Landmannalaugum til að sjá hvort það væri laust pláss...ef svo væri ekki þá gátum við tekið strætó til Reykjavíkur.   En svo skemmtilega vildi til að það var akkúrat pláss fyrir okkur því allir skiluðu sér ekki í rútuna í Landmannalaugum. Þannig að ferðin heim gekk stórslysalaust fyrir sig og allir komnir heim á góðum tíma..... svona að minnsta kosti flestir.  Ég og Helena biðum eftir því að Arnþór og Allý kæmu frá Hólmavík þar sem þau skutust þangað á bílnum hennar Helenu hehehe...enda ætluðum við ekki að koma heim fyrr en á mánudegi ;)  
En frábær ferð..og ætla ég að henda hér inn nokkrum myndum frá ferðinni. emoticon   http://hallajons.123.is/photoalbums/286672/


  • 1
Flettingar í dag: 976
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 822
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 838939
Samtals gestir: 105867
Tölur uppfærðar: 21.7.2018 22:25:45